Spurt og svarað

Algengar spurningar sem tannlæknar fá á borð til sín

  • Hvenær á ég að mæta með barnið mitt í fyrstu skoðun?

    Gott er að koma í fyrstu skoðun milli 2,5 - 3,5 ára aldurs.

  • Hvað á ég að bursta mig lengi?

    Það er ekkert eitt rétt svar við þessari spurningu. Gott er að miða við að bursta sig í 2-3 mínútur. Hinsvegar fer það að mörgu leyti eftir því hvernig þú burstar, og er mikilvægara að bursta rétt, heldur en að bursta lengi. 

    Bursta þarf skipulega einn fjórðung í einu; utan, ofan, og innan á hverri tönn, 30-45 sekúndur í hverjum fjórðungi.

    2-3mínútur eru lengi að líða meðan verið er að bursta, og hafa rannsóknir leitt það í ljós að meiri hluti fólks burstar sig ekki lengur en 1 mínútu.

    Gott getur verið að stilla á lag sem er um 3mín að lengd og hætta ekki að bursta fyrr en lagið hefur klárast.

  • Hvað kostar að fara með barnið mitt til tannlæknis?

    Árgjaldið er 2.500kr og gildir í 12 mánuði í senn. 

    Sjúkratryggingar greiða allan annan kostnað við tannlækningar barna undir 18 ára aldri.

    Tannréttingar og tannsmíðar eru ekki innifaldar í þessum samningi við sjúkratryggingar.

  • Hvernig tannbursta ætti ég að nota?

    Til eru ýmsar gerðir af tannburstum, frá ótal framleiðendum. 

    Ekki er hægt að mæla með einum framleiðanda umfram annan, en mikilvægast af öllu er að velja sér mjúkan tannbursta; soft eða ultrasoft. 

    Ástæða þess að tannlæknar mæla með mjúkum tannburstum er að hann fer betur með glerung tannar, tannhálsa, og mjúkvefi í kringum tennur. 

    Mörgum þykir þessi tegund tannbursta ekki ná nægilega vel óhreinindum af tönnum, en þá getur verið fínt að prófa að bursta aðeins lengur þessi óhreinu svæði, frekar en að auka þrýstinginn eða að nota harðar tannbursta.

    Forðast skal að nota tannbursta sem eru medium eða firm.

Share by: