Af hverju að nota tannþráð?

Tennur hafa 5 hliðar. Ef þú burstar tennur með hefðbundnum hætti, ertu að hreinsa einungis 3 fleti tannar, eða 60% tanna. Gera má ráð fyrir að þeir fletir sem hreinsaðir eru séu 80% hreinir eftir burstun.

Þeir sem nota ekki tannþráð eða annars konar hreinsibúnað líkt og millitannabursta, eru því einungis að þrífa tennur munnsins u.þ.b. 50% vel.


Hvernig nota ég tannþráð?

Tökum ríflegan bút af tannþræði og vefjum um vísifingur hvorrar handar. Gott er að hafa bil milli fingranna stutt til að eiga auðveldar með að stjórna tannþræðinum. Þræðinum er rennt á milli tannanna, alveg niður i glufuna milli tannar og tannholds og nuddað þétt upp við hvora tönn í hverju bili, og strokið upp og niður eftir hverri tönn.


Hversu oft á að nota tannþráð?

Mikilvægt er að hreinsa á milli tannanna einu sinni á dag, annaðhvort með tannþræði eða millitannabursta. Best er að tannþráða áður en burstað er. Þá eru óhreinindi á milli tanna fjarlægð til að skapa aðgengi fyrir flúor tannkremsins. Sé tannþráðað eftir burstun er jafnframt verið að fjarlægja flúorinn að einhverju leyti úr þessum svæðum á milli tanna.


Hverjir þurfa að nota tannþráð?

Allir eiga að nota tannþráð, börn jafnt sem fullorðnir. Gott viðmið hjá börnum er að ef einhverjar tvær tennur snertast, þá skuli tannþráðað á milli þeirra.

Share by: